23. febrúar. 2005 09:35
Starfsmenn Spalar óttast að ítrekaður háskaleikur flutningabílstjóra geti endað með stórslysi en nú þegar hefur orðið tugmilljóna króna tjón vegna þess að bílstjórar aka með of háan farm inn í göngin. Síðasta atvikið af þessu tagi varð föstudaginn 11. febrúar en þá var flutningabíll á suðurleið með of háan gám ekið í göngin. Slapp gámurinn rétt undir öryggisbita í norðurmunna ganganna með því að bílstjórinn hleypti úr loftpúðum bílsins og lækkaði hann þannig nægilega mikið. Talið er að bílstjórinn hafi gleymt að gera sömu ráðstafanir þegar kom að suðurmunnanum því bílnum var ekið á fullri ferð á öryggisbitann þeim megin. Sjá má í öryggismyndavélum Spalar að höggið varð gríðarmikið þegar gámurinn rakst á öryggisbitann en engu að síður hélt ökumaðurinn áfram ferð sinni eins og ekkert hefði í skorist.
Ítarlega er sagt frá þessu í Skessuhorni sem kemur út í kvöld.