23. febrúar. 2005 12:29
Vegna verkfalls kennara sl. haust og tafa sem af þeim sökum varð á skólahaldi, hefur víða verið hætt við útgáfu hefðbundinna skólablaða sem jafnan eru gefin út á hverju ári. Af þeim sökum vekur það sérstaka eftirtekt að nemendur langminnsta grunnskólans á Vesturlandi, þ.e. grunnskólans í Tjarnarlundi í Saurbæjarhreppi hafa nýlokið við útgáfu á 36 síðna skólablaði sem dreift hefur m.a. verið til allra skóla á Vesturlandi. Blaðið er stútfullt af efni; viðtölum, myndum og auglýsingum og hið vandaðasta í alla staði.
Ritstjórar blaðsins voru þau Baldur, Gísli Rúnar, Ásdís Helga, Sandra Sif og Hrefna Frigg, en það mun vera réttur þriðjungur af nemendum skólans.