22. janúar. 2016 01:12
Það var glatt á hjalla hjá konunum í Sorptimistaklúbbi Akraness þegar lagt var í árlegan pönnukökubakstur fyrir bóndadaginn í gær. Framtak klúbbfélaga hefur mælst vel fyrir í fyrirtækjum í bæjarfélaginu sem fyrir löngu eru orðnir fastir áskrifendur að pönnukökum að morgni bóndadags. Að sögn Önnu Láru Steindal blaðafulltrúa Soroptimista á Akranesi hófst baksturinn síðdegis í gær og stóð fram á rauða kvöld. Klukkan sex í morgun var svo hafist handa við að bæta í sykri og rjóma, pakka pönnsunum og aka með sendingarnar í fyrirtækin. „Það eru um 80 fyrirtæki sem kaupa af okkur og taka þessu afskaplega vel. Fyrir það erum við þakklátar,“ sagði Anna Lára. Í klúbbnum eru um 30 félagar og af þeim bökuðu nú 22 konur að þessu sinni.
Pönnukökurnar runnu ljúflega niður hjá starfsmönnum fyrirtækja en geta má þess að uppskriftin er úr smiðju Ólínu Jónsdóttur kennara.
„Við bökuðum 3400 pönnukökur að þessu sinni. Þetta er okkar helsta fjáröflun, en Soroptimistar eru alþjóðleg samtök kvenna sem styrkja kynsystur sínar. Við komum saman einu sinni í mánuði að vetrinum í húsnæði HVER og það eru einmitt konur þar sem notið hafa góðs af fjáröflun okkar en við styrkjum námssjóð HVER,“ segir Anna Lára.