22. janúar. 2016 02:38
Hjónin Ingi Hans Jónsson og Sigurborg Kr Hannesdóttir eiga og reka gistihúsið Bjarg Apartments í Grundarfirði. Eftir að hafa gert húsið upp var gistiheimilið opnað snemma á síðasta ári. Það hefur fengið lofsamlega dóma gesta og er nú með fullt hús stiga, 10,0 í einkunn samkvæmt umsögnum 24 síðustu dvalargesta á bókunarvefnum Booking.com. Margir gististaðir um vestanvert landið hafa verið að skora hátt í umsögnum gesta bókunarvefjarins, en þessi einkunn hefur hvergi sést upp nýverið, enda fátíð. Á vefnum booking.com má lesa umsagnir gesta sem dásama aðbúnað, notalegt húsnæði, ægifagurt útsýni, frítt þráðlaust net og sitthvað fleira.
Vegna þessa árangurs segist Ingi Hans vera afskaplega stoltur fyrir hönd þeirra hjóna af þeim umsögnum sem gistihúsið hefur verið að fá. „Margir spyrja hvernig gerið þið þetta? Eða hvernig er þetta hægt? Hér er náttúrulega sambland af heppni og færni. Það eru nokkrir þættir sem gestirnir vega þegar kemur að því að gefa einkunn. Á nokkra þeirra getur maður haft talsverð áhrif eins og t.d. hreinlæti, starfsfólk og frítt WiFi. Aðrir þættir eru mun matskenndari svo sem staðsetning, þægindi, aðbúnaður og hversu mikið gestir telja sig fá fyrir peninginn. Helst er hægt að hafa áhrif á þessa þætti með því að lofa ekki meiru en staðið er við og að gestir hafi sem bestar upplýsingar um hvað þeir eru að kaupa. En hvort rúmið er of mjúkt eða of hart metur sá einn sem í því liggur hverju sinni,“ segir Ingi Hans.