22. janúar. 2016 03:48
MMR kannaði fylgi stjórnmálaflokka og stuðning við ríkisstjórnina á tímabilinu 12. til 20. janúar síðastliðna. Samkvæmt könnuninni þá jókst fylgi Pírata um 2,6 prósentustig frá meðaltali kannana MMR í desember síðastliðnum og mældist nú 37,8%. Fylgi Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hefur farið minnkandi síðustu tvær kannanir á sama tíma og fylgi Samfylkingar og Bjartrar framtíðar hefur verið sveiflukennt og fylgi Vinstri grænna hefur þokast upp á við. Breytingar á fylgi flokka voru í öllum tilfellum innan vikmarka frá síðustu könnun, segir í frétt MMR.
„Þannig mældist fylgi Sjálfstæðisflokksins 19,5% borið saman við 20,6% í síðustu könnun (18. desember) og 22,9% í könnuninni þar áður (7. desember). Fylgi Framsóknarflokksins mældist 10,0% borið saman við 11,5% í síðustu könnun og 12,9% í könnuninni þar áður. Fylgi Vinstri-Grænna mældist nú 12,5% borið saman við 11,4% í síðustu könnun og 9,4% þar áður. Fylgi Samfylkingarinnar mældist nú 10,4% borið saman við 12,9% í síðustu könnun og 9,4% þar áður. Fylgi Bjartrar framtíðar mældist 4,4% nú en 5,3% í síðustu könnun og 4,6% þar áður. Fylgi annarra flokka mældist um og undir 1%.“