26. janúar. 2016 06:01
Hafrannsóknastofnun lauk í síðustu viku vinnu við að leggja mat á stofnstærð loðnu á Íslandsmiðum. Niðurstaðan er sú að veiðistofn loðnunnar sé aðeins 675 þúsund tonn að stærð. Sé tekið tillit til aflareglu sem tekur mið af náttúrulegum afföllum loðnunnar í vetur og því að skilja skal 150 þúsund tonn af loðnu eftir til hrygningar, þá er niðurstaðan sú að heildarloðnukvóti verður alls 173 þúsund tonn.
Íslendingar eru bundnir af fiskveiðisamningum við nágrannaþjóðirnar. Í þeim samningum eru ákvæði um að þær hafi rétt til að veiða hluta af loðnunni á Íslandsmiðum. Þessir samningar gera það að verkum að 73 þúsund tonn af heildarkvótanum falla í hlut Norðmanna, Grænlendinga og Færeyinga. Norðmenn fá 45.005 tonn þar sem 31.165 tonn eru vegna skipta við þá á þorski í Barentshafi vegna hins svokallaða Smugusamnings. Grænlendingar fá síðan 19.030 tonn og Færeyingar 8.650 tonn. Eftir standa svo 100.315 tonn til íslenskra skipa. Þessi kvóti er aðeins einn fjórði af loðnuafla síðasta vetrar.
Loðnuvertíðin nú hefst því á mjög litlum kvóta auk þess sem rússneskur markaður fyrir heilfrysta loðnu og loðnuhrogn er lokaður. Sala á loðnuafurðum til Rússlands hefur lyft verðmætum á loðnuvertíðinni mjög á undanförnum árum. Verð á fiskimjöli og lýsi er hins vegar hátt nú um stundir. Það gæti vegið upp tapið en er líklega skammgóður vermir því loðnukvótinn er svo lítill.