26. janúar. 2016 10:06
Liðskiptaaðgerðum verður fjölgað á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi á þessu ári samkvæmt sérstökum samningi við heilbrigðisráðuneytið. Að sögn Guðjóns Brjánssonar forstjóra HVE nemur fjölgunin 75 aðgerðum umfram þær 110 aðgerðir sem áætlaðar höfðu verið á árinu. „Eins og kunnugt er, þá hefur verið unnið að því að stytta biðlista í tilteknum aðgerðaflokkum í heilbrigðiskerfinu sem lengst hafa til muna undanfarin misseri. Í þessu sambandi má nefna að nú bíða nær þúsund Íslendingar eftir liðskiptaaðgerð. Önnur sjúkrahús sem taka þátt í átaksverkefninu eru LSH og Sjúkrahúsið á Akureyri en markmið stjórnvalda er að aðgerðum á þessu sviði fjölgi í heild um 570 á árinu. Þess er vænst að áframhald verði á þessu verkefni á næsta ári en stofnunin fær skilyrta fjárveitingu að upphæð ríflega 54 milljónir króna ef tekst að uppfylla markmiðin um 75 aðgerðir til viðbótar innan ársins. Við þessa aukningu í starfseminni verður nauðsynlegt að fjölga fagfólki um ríflega þrjú stöðugildi,“ segir Guðjón.