27. janúar. 2016 09:01
Mannamót markaðsstofa landshlutanna fór fram í flugskýli Ernis við Reykjavíkurflugvöll síðastliðinn fimmtudag. Mannamót er árlegur viðburður og er ætlað að vera vettvangur ferðaþjónustufyrirtækja á landsbyggðinni til að kynna sig og sína þjónustu fyrir ferðaskrifstofum og fleiri ferðaþjónustuaðilum á höfuðborgarsvæðinu. Á Mannamóti hittist því fólk alls staðar af landinu, kynnist hvert öðru og myndar tengsl. Rúmlega 30 fyrirtæki af Vesturlandi tóku þátt í mannamóti og var heill gangur sýningarinnar undirlagður fulltrúum fyrirtækja úr héraði, sem kynntu sína vöru og þjónustu og kom á framfæri við annað fólk í þessum sama geira. Skessuhorn tók nokkra ferðaþjónustuaðila á Vesturlandi tali og ræddi við þá um undanfarin ár og komandi tíð. Óhætt er að segja að ferðaþjónustufólk í landshlutanum líti björtum augum til framtíðar. Ítarlega er greint frá þessu í Skessuhorni sem kom út í dag.