Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
29. janúar. 2016 04:52

Skoða hugmyndir sem leyst gætu húsnæðisvanda Hnoðrabóls

Legið hefur fyrir að húsnæði leikskólans Hnoðrabóls í Reykholtsdal er of lítið og óhentugt fyrir þann fjölda barna sem er á svæðinu á leikskólaaldri. Sveitarstjórn Borgarbyggðar ákvað á liðnu ári að stefna að færslu skólans að Kleppjárnsreykjum. Í framhaldi af því var leitað til Ómars Péturssonar byggingafræðings hjá Nýhönnun um að leggja fram lauslegt mat á tveimur leiðum til að leysa húsnæðismál skólans. Annars vegar var kannað hversu vænlegt það gæti reynst að breyta tveimur parhússíbúðum á Kleppjárnsreykjum, sem eru í eigu sveitarfélagsins, í leikskóla. Sú leið er ein af þeim tillögum sem til skoðunar voru hjá vinnuhópi um húsnæðismál Hnoðrabóls í upphafi kjörtímabilsins. Hins vegar var skoðað að gera breytingar á og hugsanlega einnig að stækka húsnæði grunnskólans á staðnum þannig að það gæti bæði rúmað starfsemi leikskóla og grunnskóla. Með því væri hægt að ná fram hagræði svo sem með samnýtingu eldhúss og mötuneytis. Að sögn Kolfinnu Jóhannesdóttur sveitarstjóra býður sú leið einnig upp á sveigjanleika í nýtingu húsnæðis, auðveldar að mæta sveiflum á nemendafjölda milli skólastiga og skapar tækifæri til að byggja upp núverandi skólahúsnæði á Kleppjárnsreykjum og þá aðstöðu sem þar er. Tillögur Ómars eru nú til skoðunar hjá fræðslunefnd sem fjallað hefur um málið.

 

 

 

Engin ákvörðun verið tekin

Að sögn Kolfinnu hefur ekki verið tekin ákvörðun í sveitarstjórn um hvort önnur hvor fyrrgreindra leiða verður farin. Nú liggi hins vegar fyrir að báðar leiðir eru færar. Hún segir að fulltrúar sveitarfélagsins muni mæta á íbúafund sem boðað hefur verið til í Logalandi næstkomandi miðvikudagskvöld klukkan 20, þar sem íbúar vilja ræða framtíðarsýn leikskólans Hnoðrabóls. „Við munum útskýra stöðu þessa máls fyrir íbúum og þá valmöguleika sem við höfum verið að skoða til að leysa megi á farsælan hátt húsnæðismál leikskólans Hnoðrabóls. Engin ákvörðun hefur verið tekin um málið og það er gott að íbúar vilji eiga þetta samtal við okkur um næstu skref og allir eiga á þessum fundi að getað komið skoðunum sínum á framfæri,“ segir Kolfinna. Hún segir að ekki hafi verið í umræðunni í hugmyndavinnu sveitarfélagsins að sameina rekstur Hnoðrabóls og Kleppjárnsreykjadeildar Grunnskóla Borgarfjarðar, jafnvel þótt rekstur beggja skólanna verði færður undir eitt þak. „Við munum hins vegar leita allra leiða til að finna hentuga lausn sem bæði sveitarstjórn og íbúar geti sætt sig við,“ segir Kolfinna.

 

Fræðslunefnd ályktaði

Á fundi fræðslunefndar Borgarbyggðar fyrr í vikunni var lögð fram ályktun þar sem segir um úttekt Nýhönnunar á tveimur fyrrgreindum leiðum: „Sá samanburður á hönnunarvinnu sem hér hefur verið lagður fram hefur leitt að því að báðar leiðir eru færar. Það er ljóst að eftir á að fara fram nánari greiningarvinna með hliðsjón af áætluðum barnafjölda næstu ára og framkvæmdaráætlun fjárhagsáætlunar 2016. Fræðslunefnd leggur til að fram fari vinna með stjórnendum og starfsfólki sem miði að því að horfa heildstætt á húsnæðismál leik- og grunnskólans í grunnskólahúsnæðinu á Kleppjárnsreykjum og mætt verði þörfum leik- og grunnskólabarna á næstu árum. Áhersla verði lögð á að framkvæmdin verði aðlöguð að núverandi fjárhagsáætlun þannig að hægt verði að fara í framkvæmdir vorið 2016. Mikilvægt er að leikskólinn Hnoðraból haldi sjálfstæði sínu og gott samstarf verði við stjórnendur og starfsmenn um hönnun og skipulag leikskólans.“

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is