10. febrúar. 2016 06:01
112 dagurinn verður haldinn um allt land á morgun, fimmtudaginn 11. febrúar. Af því tilefni munu viðbragðsaðilar í Borgarfirði koma saman í Hyrnutorgi milli kl. 15 og 18 og kynna starfsemi sína, líkt og undanfarin ár á þessum degi. Eru það björgunarsveitirnar, Slökkvilið Borgarbyggðar, Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Rauði krossinn og Lögreglan á Vesturlandi sem standa að kynningunni.
Dagurinn hefur einnig verið valinn til að afhenda Akranes- og Borgarfjarðardeild Rauða krossins fjöldahjálparkerru sem þær hafa í sameiningu fest kaup á. Mun kerran án efa nýtast vel svæðinu ef til slysa eða náttúruhamfara kæmi. Kerran verður geymd í Borgarnesi og aðgengileg ef á þarf að halda. Í kerrunni eru 30 hermannabeddar, 60 teppi, neyðarmatur, skriffæri, merkingar, ljósavél og fleira sem þarf til að opna fjöldahjálparstöð. Í Borgarbyggð eru þrjár skilgreindar fjöldahjálparstöðvar; á Bifröst, Hvanneyri og í Borgarnesi en með þessum útbúnaði væri einnig mögulegt að setja upp fjöldahjálparstöð víðar. Sjálfboðaliðar Rauða krossins hafa fengið þjálfun í að setja upp og halda utan um starfsemi fjöldahjálparstöðvar og er styrkur í því að hafa aðgang að innihaldi kerrunnar. Verður kerran til sýnis við Hyrnutorg frá kl. 17 til kl. 18. Einnig verður vakin athygli á verkefninu „3 dagar“ sem fjallar um að hver og einn búi sig undir að geta verið sjálfbjarga í þrjá daga ef til náttúruhamfara kæmi. Á þessu ári munu viðbragðsaðilar í Borgarbyggð einnig nota tækifærið og heimsækja alla leikskóla sveitarfélagsins og ræða við nemendur þeirra um starfsemi sína og 112 númerið.