25. febrúar. 2016 09:01
Framkvæmdir eru fyrirhugaðar í kirkjugarði Akraness í Görðum að sögn Sigurðar Páls Harðarsonar sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs Akraneskaupstaðar. „Ekki er um að ræða stækkun garðsins í þeirri framkvæmd heldur erum við að tala um fyllingar í hluta hans til að gera garðinn grafartækan,“ segir Sigurður Páll. Líkt og Skessuhorn greindi frá í fyrra, kom í ljós að núverandi grafreitur í kirkjugarðinum dugar mun skemur en áætlað hafði verið. Hluti garðsins reyndist ekki grafartækur en það kom í ljós þegar dýptarmæling á svæðinu sýndi hæðarlegu klappar miðað við núverandi land og í ljós kom að hún er það ofarlega að ekki næst nauðsynleg grafardýpt. Nú stendur því til að bæta ofan á klapparsvæðið í garðinum jarðvegi. Ekki hafa verið teknar neinar ákvarðanir um stækkun á kirkjugarðinum á Görðum. „Hins vegar kemur fram í erindi frá stjórn kirkjugarðsins beiðni um stækkun garðs við Garðagrund, þar sem fyrirhugað var að yrði hugsanlega kirkja í framtíðinni,“ segir Sigurður.