02. mars. 2016 03:41
Á morgun, fimmtudaginn 3. mars klukkan 14:00, hefur félagsskapur aldraðra og öryrkja skipulagt mótmæli á tveimur stöðum í Reykjavík. Mótmælt verður framkomu ríkisins gagnvart þessum hópum. „Kerfið „okkar“ er virkilega götótt,“ segir í tilkynningu. „Við munum hittast saman með ónýt, brotin eða biluð hjálpartæki og götótta sokka. Við munum skiptast í tvo hópa. Annar hópurinn verður fyrir framan TR, Tryggingastofunun ríkisins á Laugavegi 114 á móti Hlemmi, og hinn hópurinn fyrir framan SÍ, Sjúkratryggingar Íslands Vínlandsleið 16, 113 Reykjavík. Þeir hlusta ekkert á okkur svo við verðum að láta þá sjá okkur! Sýna þeim að við erum virkilega ósátt, við viljum ekki samfélag þar sem mannréttinda eldri borgara og öryrkja eru brotin mörgum sinnum á dag,“ segir í tilkynningu.
Flutt verða ávörp og tónlistarfólk lætur einnig í sér heyra. „Við munum strengja götótta sokka og fréttamiðlar munu mæta á staðinn. Við hvetjum hvert og eitt ykkar til að koma og sýna öryrkjum og eldri borgurum landsins stuðning sinn og mæta á morgun 3. mars kl. 14 fyrir framan þessa tvo staði. Þeir sem eru kulsæknir geta tillt sér inn í TR í nýju fínu sófana eða inn í SÍ. Aðrir hraustir og vel klæddir verða í anddyri og fyrir utan.“