07. mars. 2016 09:01
Stóri Háskóladagurinn var á laugardaginn í Reykjavík þar sem allir háskólar landsins kynntu starfsemi sína fyrir væntanlegum nýnemum. En Háskóladagurinn heldur áfram. Hann verður með kynningar í Fjölbrautaskóla Vesturlands og Fjölbrautaskóla Snæfellinga á morgun, þriðjudaginn 8. mars. Allir háskólar landsins kynna þar námsleiðir sínar, sem eru yfir 500 talsins, og námsráðgjafar verða á staðnum. Kynningin á Akranesi verður kl. 10 - 11:30 og í Grundarfirði sama dag kl. 14 - 15:30.
„Það er ekki á hverjum degi sem allir háskólar landsins mæta í FVA og FSN til að kynna allt háskólanám á Íslandi,“ segir Hallfríður Þóra Tryggvadóttir, verkefnastjóri Háskóladagsins um kynningar Háskóladagsins á Vesturlandi á morgun. „Það verður bara brunað á milli skólanna því við viljum hitta sem flesta sem hafa áhuga á háskólanámi,“ segir hún jafnframt.
„Þetta er einstakt tækifæri fyrir þá sem ætla að hefja háskólanám næsta haust eða vilja skoða hvaða möguleikar eru í boði,“ segir Hallfríður og bætir við að allir séu velkomnir.
Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Bifröst, Háskólinn á Hólum, Háskólinn í Reykjavík, Landbúnaðarháskóli Íslands og Listaháskóli Íslands kynna námsframboð sitt, á grunn- og framhaldsstigi.
Háskóladagurinn veitir framtíðarnemendum tækifæri til þess að hitta námsráðgjafa, kennara, starfsmenn og nemendur háskólanna svo þeir geti tekið upplýsta ákvörðun um námsval. „Við hvetjum fólk á öllum aldri til þess að mæta hvort sem þeir eru að útskrifast úr framhaldsskóla eða vilja bæta við sig meistaranámi. Það er margt í boði í þessum sjö háskólum landsins og vert að kynna sér fjölbreytileikann sem ríkir innan veggja háskólanna," segir Hallfríður.