30. mars. 2016 01:00
Heildarafli íslenska flotans á fyrstu sex mánuðum fiskveiðiársins 2015 til 2016, frá 1. september 2015 til loka febrúar 2016, nam tæpum 472 þúsund tonnum upp úr sjó. Til samanburðar var aflinn á sama tímabili í fyrra rúm 648 þúsund tonn. Þetta er samdráttur í heildarafla sem nemur um 27,2 prósentum eða rúmlega 176 þúsund tonnum. Skýrist samdrátturinn að mestu leyti af minni síldar- og loðnuafla í ár en á sama tíma í fyrra.
Mikill samdráttur er á heildarafla uppsjávarfisks. „Borið saman við sama tímabil á síðasta fiskveiðiári er nú mikill samdráttur í uppsjávarfiski. Heildaraflinn fer milli ára úr rúmum 423 þúsund tonnum í rúm 227 þúsund tonn og dregst saman um 46,3%,“ segir á vef Fiskistofu. Eins og áður sagði er það samdráttur í síldar- og loðnuafla sem skiptir sköpum í þessu samhengi.
Aftur á móti eykst heildarafli botnfisks annars vegar og hryggleysingja og krabbadýra hins vegar. „Á fyrstu 6 mánuðum yfirstandandi fiskveiðiárs veiddu íslensk skip um 17 þúsund tonnum meira af þorski (13,4%) og um 3,5 þúsund tonnum meira af ýsu (17,8%) en á sama tímabili á fyrra ári. Þá dróst ufsaaflinn saman á milli ára um 4 þúsund tonn eða um 18,5%. Heildaraflinn í botnfiski er um 18,5 þúsund tonnum meiri (8,5%) en á fyrra ári,“ segir á vef Fiskistofu. „Helstu tíðindi af afla í hryggleysingjum og krabbadýrum borið saman við sama tímabil fyrra árs er að aflinn eykst um rúmt eitt þúsund tonn, þ.e. frá rúmum 3 þúsund tonnum í fyrra upp í rúm 4 þúsund tonn á yfirstandandi fiskveiðiári. Er þessi aukning mest vegna aukinnar veiði í rækju (10%), hörpudiski (138%) og sjæbúgum (138%).“