02. mars. 2005 05:05
Þrátt fyrir einmuna veðurblíðu og mokafla hjá sjómönnum víða um land að undanförnu, hafa margir þeirra, m.a. sjómenn á Snæfellsnesi og Akranesi, haldið sig í landi síðustu daga vegna verðlækkana á fiskmörkuðum. Verð á fiski hefur lækkað svo mjög að óhætt er að segja að um hrun hafi verið að ræða. T.d. hefur ýsuverð svo gott sem hrunið og gengið hefur svo langt að sjómenn kalla ýsuna “bræðslufisk” sín á milli. Meðalverð á óslægðri ýsu á fiskmörkuðum landsins er nú um 50 krónur fyrir kílóið en um 100 krónur fyrir kíló þorsks. Til samanburðar má nefna að á sama tíma á síðasta ári var verð á óslægðri ýsu um 100 krónur á fiskmörkuðunum en um 150 krónur fengust fyrir þorskinn. Um 200 krónur fengust fyrir þorskkílóið fyrir aðeins mánuði síðan.
Á meðfylgjandi mynd er Hjörleifur skipstjóri á Geisla SH í Ólafsvík að koma að landi með fullfermi af vænum fiski, en Geisli er nýr hraðfiskibátur sem smíðaður var á Akranesi á sl. ári.