02. maí. 2016 06:01
Síðdegis á föstudaginn var haldin minningarhátið um fallinn félaga á Sólbakkanum í Borgarnesi. Nágrannar fjölmenntu en það sem sérstakt var við útförina var að viðstaddir óskuðu þess allir að sjá viðkomandi félaga aldrei aftur og vonuðu heitt og innilega að ekki yrði um upprisu að ræða. Umræddur félagi hafði náð ellefu ára aldri og ýmislegt hafði gengið á yfir þann tíma. Það var fyrirtækið Borgarverk sem sá um útför og vill starfsfólk fyrirtækja við Sólbakka koma á framfæri þakklæti til þeirra.
„Holan okkar í götunni á horninu hafði stækkað og minnkað á víxl í gegnum árin. Oftast í myrkrinu gleymdi maður henni en varð þó mjög fljótlega var við hana þegar beygt var inn á Sólbakkann,“ sagði ónefndur nágranni holunnar sem hugsar hlýtt til þess að hún sé nú horfin. Hlý orð voru látin falla og viðstaddir Sólbakkagrallarar voru ánægðir með að útför hefði farið fram.