02. maí. 2016 10:05
Íslandsmótið í knattspyrnu hófst með formlegum hætti í gær þegar leiknir voru fjórir leikir í Pepsi deild karla. Nýliðar Víkings Ólafsvíkur byrjuðu mótið vel. Þeir gerðu sér lítið fyrir og unnu Breiðablik á útivelli með tveimur mörkum gegn einu.
Þorsteinn Már Ragnarsson kom Víkingi yfir á 33. mínútu með frábæru marki. Hrovje Tokic var að snúa sig fram hjá varnarmanni um 30 metra frá markinu. Hann missti boltann aðeins inn á völlinn en missti aðeins jafnvægið. Það kom þó ekki að sök því Þorsteinn kom aðvífandi og negldi boltanum upp í hornið. Stórglæsilegt mark sem skildi liðin að í hálfleik.
Blikar mættu mjög ákveðnir til síðari hálfleiks. Sköpuðu vörn Víkinga tvisvar sinnum vandræði áður en þeir jöfnuðu á 48. mínútu. Boltinn barst inn á teiginn og Cristian Liberato kom út úr markinu en mistókst að koma boltanum frá. Andri Rafn Yeoman þakkaði fyrir sig og renndi boltanum í autt markið.
Leikurinn var mjög líflegur þarna í upphafi síðari hálfleiks. Skömmu eftir markið voru Blikar heppnir að skora ekki sjálfsmark og mínútu síðar björguðu Víkingar á línu. Eftir það róaðist leikurinn heldur. Það var ekki mikið að gerast á vellinum þegar Víkingar skoruðu sigurmarkið. Kenan Turudija fékk boltann við vítateigshornið hægra megin og þrír Víkingar í teignum. Hann hafði hins vegar ekki hug á að gefa boltann. Hnitmiðað innanfótarskot hans hafnaði í fjærhorninu, sláin inn. Kenan átti aftur eftir að koma við sögu áður en leik lauk. Á loka mínútunni var hann of seinn í tæklingu og braut af sér. Að launum hlaut hann sitt annað gula spjald og þar með rautt.
Sigurinn tryggði Víkingi góð þrjú stig í komandi baráttu. Geta má þess að síðast þegar Víkingar voru í efstu deild, sumarið 2013, þurftu þeir að bíða í níu leiki eftir sínum fyrsta sigri.
Næsti leikur Víkinga fer fram sunnudaginn 8. maí þegar þeir taka á móti Valsmönnum í Ólafsvík.