04. maí. 2016 11:28
Grundfirðingurinn Ingólfur Örn Kristjánsson heldur áfram að gera góða hluti í norska fótboltanum. Hann leikur sem framherji með SK Herd frá Álasundi í 3. deild í Noregi, en það er fjórða efsta deildin þar í landi. Áður en hann gekk til liðs við Herd lék hann með Volda TI, einnig í 3. deild og hér heima með Grundarfirði og Völsungi. Á dögunum léku Ingólfur og félagar hans í Herd í bikarnum. Þar mættu þeir nágrönnunum í Aalesunds FK, sem spilar í norsku úrvalsdeildinni, Tippeligaen. Skemmst er frá því að segja að úrvalsdeildarliðið átti í stökustu vandræðum með 3. deildar lið Herd. Ingólfur kom sínu liði í 2-0 með tveimur mörkum á fyrstu tólf mínútum leiksins. Aalesunds FK náði að jafna áður en Herd komst yfir á nýjan leik. Úrvalsdeildarliðið jafnaði á nýjan leik skömmu fyrir leikslok og sigraði að lokum eftir framlengingu með fjórum mörkum gegn þremur.
Ingólfur hefur nú skorað níu mörk í átta leikjum með Herd í öllum keppnum það sem af er tímabili.