24. mars. 2005 07:28
Undanfarnar vikur hafa leikfélög um allt Vesturland sett upp ýmsar sýningar. Leikfélag NFFA er þar engin undantekning og eru nú hafnar æfingar á leikritinu Stæltu stóðhestarnir í leikstjórn Ingiríðar Jónsdóttur.
Verkið er eftir þá Anthony McCarr og Stephen Sinclair, en Júlíus Guðmundsson og Ómar Ólafsson þýddu það yfir á íslensku. Stæltu stóðhestarnir fjallar um nokkra félaga sem eru atvinnulausir eða því sem næst. Einn þeirra fær þá snilldarhugmynd að fara að dæmi annarra kynbræðra sinna og fletta sig klæðum uppi á sviði, fyrir borgun. Þessi hugmynd fær þó misjafnar undirtektir og upp vaknar spurningin, hvort fólk sé tilbúið að gera allt fyrir pening? Æfingar hafa staðið yfir síðan í endaðan febrúar og er áætlað að frumsýna fljótlega eftir páskafrí.