01. júní. 2005 08:22
Í sumar mun hver viðburðurinn reka annan á Safnasvæðinu á Akranesi í hinni árlegu “Viðburðaveislu.” Veislan hófst í gær, þriðjudag, með afhjúpun minnismerkis um Sr. Jón M. Guðjónsson og lýkur ekki fyrr en í september.
Í dagskránni kennir ýmissa grasa. Nú á laugardag verður haldin mikil Sjávarveisla í tilefni sjómannadagsins. Þar mun m.a. fara fram Íslandsmót í sjávarsúpugerð, víkingahópurinn Hringhorni smíðar úr járni í eldsmiðju, leyfir fólki að skjóta af langboga og velur Akranesmeistara í axarkasti svo eitthvað sé nefnt. Auk þess verða þar 150 gestir úr höfuðborginni sem koma með Akraborginni í bæinn á hádegi.
Viku síðar, eða laugardaginn 11. júní, verður opnuð farandsýning sex myndlistarmanna sem starfa á minjasöfnum umhverfis landið. Sýningin nefnist “Í hlutanna eðli,” stefnumót lista og minja og stendur til 26. júní.
Kleinumeistaramót Íslands hefur vakið mikla athygli undanfarin ár og það ekki að ástæðulausu enda ferðast kleinubakarar landshorna á milli til þess að spreyta sig í keppninni. Mótið fer að þessu sinni fram laugardaginn 23. júlí og er full ástæða til að hvetja fólk til að láta það ekki framhjá sér fara.
Í ágúst verða svo bæði markaðsdagur á Skaga og fornbílaheimsókn og viðburðaveislunni lýkur þann 10. september með “Sveitarómantík.” Þar verða störf til sveita kynnt ásamt fleiri uppákomum og sleginn botn í daginn og viðburðaveisluna með gamaldags sveitaballi á Safnasvæðinu.
Nánari upplýsingar um viðburðina má finna með því að fara inn á www.skessuhorn.is og skoða "Á döfinni".