01. júní. 2005 09:55
Laxveiðisumarið hófst formlega í morgun með opnun Norðurár í Borgarfirði. Eins og venjulega bíða veiðimenn spenntir eftir því hvernig sumarið fer af stað en útlitið er allavega þokkalega bjart fyrirfram, að mati Sigurðar Más Einarssonar hjá Veiðimálastofnun. “Sjávarskilyrði eru góð og allar líkur á að fiskurinn komi vel haldinn af afréttinum,” segir Sigurður. “Seiðaástandið er líka gott og árnar eru að framleiða ágætlega. Það eru því öll ytri skilyrði hagstæð og því ættu menn að geta átt von á ágætu laxveiðisumri. Þurrkarnir geta að vísu sett strik í reikninginn eins og verið hefur þrjú síðustu ár. Það byrjar þó ekki björgulega því árnar eru komnar í lágmark og tímabilið er ekki byrjað. Hinsvegar er svolítill snjór í fjöllum sem var ekki í fyrra og það veit á gott,” segir Sigurður.
Veiðimönnum í Norðurá gekk illa að setja í fyrsta laxinn í morgun, en skv. upplýsingum Skessuhorns var ekki kominn á land fiskur á 10. tímanum, en veiði hófst á slaginu klukkan 7.