04. júní. 2005 09:42
Ákveðið hefur verið að bjóða upp á sérstakt nám á Akranesi, svokallaða Stóriðjubrú, sem undirbýr fólk fyrir vinnu í stóriðju og gefur fleirum kost á vinnu á þeim vettvangi og fjölgar þannig atvinnutækifærum fólks. Björn Elíson hjá markaðs- og atvinnuskrifstofu Akraneskaupstaðar er verkefnisstjóri Stóriðjubrúar. “Markmiðið með Stóriðjubrú er að kynna þátttakendum starfsemi stóriðjufyrirtækja og styrkja einstaklinga til að takast á við störf á þeim vettvangi. Sérstaklega verður reynt að höfða til kvenna og annarra sem ekki hafa horft á stóriðju sem valkost í atvinnuleit sinni,” segir Björn í samtali við Skessuhorn.
Námið verður byggt upp með svokölluðu menntasmiðjusniði. Það inniber m.a. að mætingarskylda er sem næst 100% en á móti kemur að ekki er gert ráð fyrir lokaprófum nema að þátttakendur sæki svokallað Stóra-vinnuvélanámskeið og taka þá próf sem undir það fellur. Björn segir vinnu í stóriðju vera að mörgu leiti frábrugðna annarri vinnu. “Má þar nefna þætti eins og vaktavinnu, vélavinnu, hópastarf og stærð vinnustaðar svo fátt eitt sé nefnt. Námið er tólf vikna nám þar sem farið verður yfir atriði eins og öryggismál, vinnu í stóriðju, vaktavinnu, framleiðsluferli stóriðju o.fl. Einnig verður unnið með sjálfseflingu, hópefli og samskipti. Bóklegt vinnuvélanám er hluti af náminu. Tvær vikur fara í verklegt nám og verður nemendum þá skipt niður á nokkra vinnustaði til að kynnast þeim betur og þeirri starfsemi sem þar fer fram. Námið er ætlað öllum þeim sem vilja kynnast vinnu í stóriðju og verða hæfari umsækjendur um vinnu hjá stóriðjufyrirtækjum. Konur eru sérstaklega hvattar til að sækja þetta nám,” segir Björn.
Námskeiðið verður haldið á Akranesi og er áætlað að það hefjist 12. september í haust. Skráning er hafin og er námskeiðsgjald 25.000 krónur. Að námskeiðinu standa Akraneskaupstaður, Símenntunarmiðstöðin á Vesturlandi, Svæðisvinnumiðlun Vesturlands og Verkalýðsfélag Akraness.