02. júní. 2005 03:17
Forseti Íslands afhenti í gærkvöldi Íslensku menntaverðlaunin. Þetta er í fyrsta skipti sem verðlaunin eru veitt. Aðalverðlaunin komu í hlut Grundaskóla á Akranesi fyrir framúrskarandi skólastarf. Er þetta tvímælalaust stærsta viðurkenning sem grunnskóli hér á landi getur hlotnast og er fullvíst að skólinn; starfsfólk, foreldrar og nemendur eru vel að þessum verðlaunum komin.
Verðlaun þessi voru veitt skóla "sem sinnt hefur vel nýsköpun eða farsælu samhengi í fræðslustarfi," eins og segir í tilkynningu frá Forseta. Þar segir einnig: "Grundaskóli hefur ávallt verið framsækinn skóli og þar hefur verið lögð rækt við fjölbreytta náms- og kennsluhætti. Í skólanum hafa verið unnin mörg áhugaverð þróunarverkefni þar sem lögð er áhersla á skapandi og fjölbreytt viðfangsefni..."
Skessuhorn óskar Grundaskóla til hamingju, en í næstu viku verður rætt við Guðbjart Hannesson, skólastjóra og fleiri vegna verðlaunanna.