07. júní. 2005 09:18
Borgfirðingabók 2005, ársrit Sögufélags Borgarfjarðar kom út í vikunni. Þetta er 6. árgangur, fjórir þeir fyrstu komu á árunum 1981 – 1984, en ritið var síðan endurvakið á síðasta ári. Ritstjóri er Finnur Torfi Hjörleifsson.
Þessi árgangur er 208 síður að stærð og hefur að geyma fjölbreytt efni í bundnu máli og óbundnu, frásagnir af sérstæðum atvikum, greinar um menn og málefni meðal annars um Guðmund Böðvarsson skáld, um sögu veitinga og gistiþjónustu í héraðinu á fyrri hluta síðustu aldar og frásögn um söluferð Eldborgar til Þýskalands á vordögum 1947 og af skíðanámi ungra Borgfirðinga um það leyti er Danmörk og Noregur voru hernumin. Ennfremur er þar að finna frásagnir af starfi stofnana og félagasamtaka í héraðinu, greinar um sameiningu sveitarfélaga og viðtöl um ólík efni. Þar eru einnig ljóð, bæði eftir þekkt skáld úr héraði og önnur minna þekkt og yngri að árum. Margar myndir, gamlar og nýjar prýða ritið og styðja við hið ritaða mál.
Ritinu verður dreift til kynningar og áskriftar til einstaklinga, innan héraðs og utan, en verður auk þess til sölu í verslunum og þjónustustöðum í héraðinu. Forsíðumynd Borgfirðingabókar tók Áslaug Þorvaldsdóttir og sýnir Baulur undur Skessuhorni. Umbrot var í höndum Uppheima en Gutenberg prentaði.