04. júní. 2005 09:22
Efnt verður til kúskadags á Hvanneyri laugardaginn 13. ágúst n.k. Dagurinn er tilefni til þess að gamlir kúskar á Hvanneyri, vinnumenn og annað starfsfólk sem þar hefur komið við sögu búreksturs í gegnum tíðina komi saman og rifji upp gamlar minningar. Umfangsmikið skólabú hefur alla tíð verið rekið á Hvanneyri og fyrir daga stórvélvæðingar þurfti því marga starfsmenn við búreksturinn - ekki síst kúska.
Á Kúskadaginn verður efnt til sögudagskrár og samveru á Hvanneyri með alvöru, glensi og gamni, á tímabilinu kl. 13-17. Búvélasafnið verður opið að ógleymdu Ullarselinu og veitingar verða fáanlegar í verslunarmiðstöðinni Kertaljósinu, sem einmitt er í gömlu hestaréttinni þar sem margur kúskurinn hóf frumraun sína í þessu ábyrgðarmikla starfi. Leiðsögn um hús og hlöð verður veitt, gömlum dráttarvélum snúið í gang, en mest upp úr því lagt að maður verði manns gaman. Kjörorð dagsins er: Hvanneyrarkúskar allra tíma - sameinist!
Með þessari tilkynningu er vakin athygli á atburðinum, en jafnframt óskað eftir því að heyra frá gömlum (og ungum) kúskum, vinnumönnum og öðrum starfsmönnum sem deila minningum frá Hvanneyri. Þannig væru myndir og hvers konar annað efni, sem varpað getur ljósi á starfssöguna á Hvanneyri, vel þegið fyrirfram svo búa mætti til hugsanlegrar sýningar. Vinsamlegast hafið samband við Guðmund Hallgrímsson ráðsmann, s. 860 7305, eða Bjarna Guðmundsson kennara, s. 894 6368, eða í síma Búvélasafnsins, 433 5000. Gert er ráð fyrir að nánari upplýsingar um Kúskadaginn á Hvanneyri verði birtar á heimasíðu Búvélasafnsins www.buvelasafn.is