08. júní. 2005 10:35
Um síðustu helgi var 26. landsmót Skáksambands Íslands í skólaskák haldið í Varmalandsskóla í Borgarfirði. Það voru Skáksambandið og skáknefnd UMSB sem sáu um mótshaldið að þessu sinni. Tuttugu og fjórir krakkar af öllu landinu komu þar saman til að keppa um titilinn "Skólaskákmeistari Íslands," en sá sem vann fyrstur þennan titil í eldri flokki árið 1979 var enginn annar en stigahæsti skákmaður Norðurlanda, stórmeistarinn Jóhann Hjartarson. Í gegnum tíðina hefur keppnin gefið af sér alla sterkustu skákmenn þjóðarinnar og ætíð þótt sérstakur heiður að bera titil Skólaskákmeistara Íslands.
Keppt var í tveimur flokkum. Í yngri flokki eru nemendur 1.-7. bekkja grunnskólanna og í eldri flokki nemendur 8.-10. bekkjar. Allir höfðu þessir krakkar unnið sér rétt í mótinu með því að verða kjördæmismeistarar í skólaskák. Það vekur sérstaka athygli að nokkrar stúlkur eru nú á meðal þeirra sem unnið hafa sér rétt á mótinu, en slíkt hefur í gegnum tíðina heyrt til algjörra undantekninga.
Það var Hjörvar Steinn Grétarsson sem sigraði í yngri flokki en Atli Freyr Kristjánsson í eldri flokki og eru þeir báðir í Taflfélaginu Helli. Fyrir hönd Vestlendinga kepptu Tinna Kristín Finnbogadóttir í eldri flokki og Jóhann Óli Eiðsson og Auður Eiðsdóttir í yngri flokki. Þau stóðu sig vel á mótinu og er greinilegt að skipulagðar æfingar undanfarin tvö ár eru farnar að skila sér.
Nú í haust mun Skákskóli Íslands og Skáksambandið vera með skákkennslu og skákviðburði í Borgarfirði til eflingar skákiðkun Borgfirðinga og sem þakklætisvott til Borgfirðinga fyrir að halda Landsmótið í ár.