12. júní. 2005 11:38
Eftir um aldarfjórðungshlé en nú útlit fyrir að bygging íbúðarhúsnæðis í Reykholti í Borgarfirði sé að fara af stað, og það af krafti. Hafin er bygging eins parhúss en jafnframt er búið að skipuleggja nýja íbúðargötu fyrir 10 einbýlishús og hefur lóðum þar nær öllum verið ráðstafað.
“Það var að undirlagi Borgarfjarðarsveitar sem vinna við skipulag íbúðarhúsnæðis fór af stað í Reykholti en það verður Snorrastofa sem hefur með framkvæmdina að gera. Við erum í viðræðum við hreppinn um að annast gatnagerð og í tengslum við þetta nýja hverfi hitaveitu og fleira. Vonumst við til að framkvæmdir fari af stað á næstu dögum. Snorrastofa hyggst fylgja eftir þeirri uppbyggingu sem orðið hefur í Reykholti og verður stofnað fyrirtæki sem mun annast framkvæmdir heima á staðnum í framtíðinni,” sagði Geir Waage sóknarprestur og staðarhaldari í samtali við Skessuhorn.
Geir segir að strax og það hafi farið að spyrjast út að verið væri að skipuleggja íbúðahverfi hafi orðið vart mikils áhuga fyrir lóðunum og sé þeim nú öllum að einni undanskilinni ráðstafað. “Þetta eru mest einstaklingar sem ættaðir eru héðan úr sveitinni sem sýnt hafa þessu áhuga og hyggjast setjast hér að með börn og buru, grafarrætur og muru,” segir Geir og bætir við: “Nýja gatan liggur til austurs út úr aðalíbúðargötu staðarins sem löngum hefur óopinberlega verið nefnd Pabbagata eða Sonaminnastræti, en hefur nú fyrst formlega verið nefnd Tröðin. Nýja íbúðagatan hefur fengið nafnið Hallveigartröð til sóma við þá konu sem stóð fyrir búi með Snorra Sturlusyni forðum og var raunar frilla hans eða sambýliskona.”