22. júní. 2005 10:25
AKRANES: Skrifað var undir nýjan kjarasamning fyrir starfsmenn Klafa sl. fimmtudag. Erfiðlega gekk að ganga endanlega frá nýjum samningi og segir á heimasíðu Verkalýðsfélags Akraness að það sé kannski ekki óeðlilegt þar sem um algerlegan nýjan kjarasamning hafi verið að ræða. Hinn nýi samningur byggist nánast að öllu leyti á kjarasamningi Íslenska járnblendifélagsins við VLFA.
Í gær biðu fulltrúar VLFA eftir tilboði sem forsvarsmenn Fangs hugðust leggja fram vegna nýs kjarasamnings. Þeir sem starfa hjá Fangi eru starfsmenn sem sjá um ræstingar fyrir Norðurál og Íslenska járnblendifélagið. Einnig sjá starfsmenn Fangs um mötuneytið hjá ÍJ. Krafa VLFA félaga hjá Fangi er gerð sambærilegs samnings og undirritaður var í síðustu viku f.h. starfsmanna Klafa.