23. júní. 2005 07:27
BORGARNES: Búið er að fresta opnun Landnámssetursins í Borgarnesi til 13. maí á næsta ári, en til stóð að opna það nú síðsumars. “Við fengum ráðleggingar um að nota veturinn áfram til undirbúnings sýningarinnar og opna svo snemma vors og koma þá af fullum krafti í byrjun ferðamannatímabilsins,” sagði Kjartan Ragnarsson, einn aðstandenda Landnámssetursins. Opnunin mun þá að öllum líkindum vera hluti af dagskrá Listahátíðar í Reykjavík og verður margt um að vera. Benedikt Erlingsson er að skrifa leikrit upp úr Egils sögu sem mun verða frumflutt við þetta tækifæri auk þess sem ýmsir sögumenn og rithöfundar munu fara með texta út Íslendingasögunum í baðstofulestri. “Það er mikil tilhlökkun í okkur að opna en jafnframt er svo skemmtilegt að vinna að undirbúningnum að það á eftir að verða eftirsjá líka,” sagði Kjartan. Sýningin mun vera í Pakkhúsinu í Borgarnesi og í nýjum skála sem verið er að reisa sem tengir það hús við veitingahúsið Búðarklett.