22. júní. 2005 12:32
Um þessar mundir er staddur á Akranesi hópur tíu 16 ára stúlkna frá Slóvakíu ásamt þremur fararstjórum. Í ágúst á síðasta ári fór hópur frá Akranesi í heimsókn til Slóvakíu og nú er erlendi hópurinn að endurgjalda þá heimsókn. Það er UFE (Ungt fólk í Evrópu) sem styrkir verkefnið en eitt af markmiðum slíkra ungmennaskipta er að útrýma fordómum og gefa ungmennum tækifæri á að kynnast annarri menningu en sinni eigin.
Það er Anna Margrét Tómasdóttir, tómstundafulltrúi Arnardals, sem hefur yfirumsjón með verkefninu. Hún segir að stelpurnar hafi fengið að upplifa margt á þeim tæpu tveimur vikum sem liðnar eru frá komu þeirra en stelpurnar ætla að dvelja á Skaganum í tæpar þrjár vikur. “Við byrjuðum á því að fara í heimsókn til Hólmavíkur þar sem við fengum höfðinglegar móttökur og heimsóttum Galdrasýninguna, Sauðfjársetrið, keyrðum út á Drangsnes og sigldum út í Grímsey svo eitthvað sé nefnt,” segir Anna Margrét. Í ferðinni sáu stelpurnar lunda, hvali, seli, hafís, ígulker, æðarvarp, jarðhitasvæði og fleira en margar þeirra hafa aldrei komið út fyrir landsteina Slóvakíu og hafa því ekki svo mikið sem séð til sjávar áður.
Eftir heimkomuna til Akraness var stefnan tekin á víkingahátíð í Hafnarfirði, Bláa lónið, Þingvelli, Gullfoss og Geysi og því ljóst að dvölin hefur verið stúlkunum frá Slóvakíu viðburðarík í meira lagi. Anna Margrét segir að ekki sé laust við að þónokkur munur sé á menningu landanna tveggja; Íslands og Slóvakíu og talsvert hafi verið um árekstra og misskilning. “Tveir hópstjóranna tala enga ensku og þær voru dregnar í ratleik án túlks fyrsta daginn. Meðan á honum stóð voru þær meðal annars teymdar yfir hringtorg og umferðareyjur. Eitthvað fannst stelpunum þær haga sér undarlega og eftir á kom í ljós að þær héldu að þær væru að brjóta lög með því að ganga á grasinu. Í Slóvakíu máttu eiga von á handtöku ef þú ert gómaður á leið yfir gras. Þeir líta svo á að gras sé lífverur líkt og blóm og tré og ganga þess vegna ekki á því – ekki frekar en að við þrömmum yfir blómabeð,” segir Anna Magga að lokum og hlær.