23. júní. 2005 02:42
Uppsetningu og frágangi á eimi til framleiðslu á sérstöku gæðavodka er nú að ljúka í blöndunarstöð Egils Skallagrímssonar í Borgarnesi. Hér er um að ræða afar vandaðan og dýran búnað. Undanfarið hefur verið unnið að hækkun hússins að hluta eða þar sem nýi eimirinn er undir. Alls mun eimirinn taka tæplega 900 lítra í hverri eimingarumferð. Til þessa hefur farið fram vínblöndun í stöðinni en nú á að framleiða sérstakt gæðavodka og miðað sérstaklega við stóra erlenda markaði en um 70% af núverandi framleiðslu fer á erlendan markað. Að loknum margs konar prófunum og tilraunum verður þessi nýi vodkadrykkur settur á markað. Stefnt er að því að þessi nýi gæðavodki verði markaðshæfur í september, að sögn Kristmars Ólafssonar, framkvæmdastjóra.