30. júní. 2005 07:57
DALIR: Það má með sanni segja að fátt sé þjófum heilagt. Síðastliðinn sunnudag uppgötvaðist að búið var að stela úr sumarbústað sem er í Tunguskógi í Sælingsdal öllum 12 gluggum hússins og útidyrahurðinni einnig. Húsið er nýlegt en ekki þó fullfrágengið. Að sögn lögreglunnar í Búðardal, sem fer með rannsókn málsins, eru engar vísbendingar um hverjir voru að verki, en rannsókn stendur yfir. Hluti glugganna sem um ræðir voru í stærðinni 1,15*1,25 m að stærð, með tvöföldu gleri, en 5 þeirra voru minni. Þeir hafa því verið þungir og í þeim talsverð fyrirferð. Lögreglan biður þá sem veitt geta upplýsingar um þennan óvenjulega hússtuld að láta vita.