28. júní. 2005 07:22
Undirbúningur fyrir Írsku dagana á Akranesi stendur nú sem hæst, enda einungis rúm vika til stefnu. Reiknað er með því að enn fleiri gestir sæki Skagann heim en á síðasta ári en þá mættu um 10 þúsund manns á hátíðina. Að sögn Sigrúnar Ó Kristjánsdóttur, starfsmanns markaðsskrifstofu Akraneskaupstaðar eru enn laus nokkur pláss í markaðstjaldi Írskra daga. Þeir sem áhuga hafa eru hvattir til þess að skrá sig sem fyrst á www.irskirdagar.is en það er ný heimasíða Írskra daga sem opnaði fyrir skömmu. “Heimasíðan hefur vakið mikla lukku og umferðin um hana er talsverð. Undanfarna daga hefur verið hlekkur á hana inni á mbl.is og hefur gestunum fjölgað mikið í kjölfarið,” segir Sigrún Ósk.