29. júní. 2005 03:01
SV-hornið: Víðtækur vilji er fyrir því að sameina slökkviliðin á Suðvesturlandi að því er Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins segir í viðtali við Slökkviliðsmanninn, blað Landssambands Slökkviliðs-og sjúkraflutningamanna sem er nýkomið út. Jón Viðar segir í viðtali við blaðið að hann sjái ekkert því til fyrirstöðu að slökkviliðin á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. á Akranesi, Reykjanesi, Keflavíkurflugvelli og í Árnessýslu sameinist. Ársfundur Landsambands Slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna samþykkti ályktun í apríl síðastliðnum þess efnis að hvatt yrði til sameiningar slökkviliða og stækkunar á þjónustusvæðum þeirra. Vernharð Guðnason, formaður Landsambandsins segir að með sameiningu slökkviliðanna á Suðvesturlandi verði reksturinn hagkvæmari og þjónustan betri.