09. júlí. 2005 07:30
Nú getur einhleypt fólk sett sig í stellingar og látið sig hlakka til því sjónvarpsstöðin Skjár einn og Sagafilm hafa byrjað leit að 25 konum og einum eftirsóttum piparsveini til að taka þátt í sjónvarpsþættinum “Íslenska Bachelornum,” sem fer í loftið í haust. Leit að áhugasömum einstaklingum til að taka þátt í þættinum berst á Akranes síðar í dag.
Að sögn Sjafnar Ólafsdóttur hjá Skjá einum er hér um að ræða fyrsta alvöru raunveruleikaþáttinn á Íslandi þar sem 25 stúlkur verða leiddar fyrir draumaprinsinn í von um að standa uppi sem sú eina rétta. “Við munum ekkert til spara til að gera upplifunina ævintýralega og skemmtilega og þáttinn eins glæsilegan og kostur er. Hér er því komið frábært tækifæri fyrir ungt fólk til að lifa hinu ljúfa lífi og njóta lífsins á sama tíma og það freistar gæfunnar og leitar að ást og hamingju. Hví ekki að láta á það reyna?” spyr Sjöfn. Hún segir að allir sem eru einhleypir og á aldrinum 21 til 35 ára geti nú sótt um að taka þátt í stórkostlegu ævintýri sem gæti endað með ást og rómantík, bónorði og demantshring!
Áhugasömum er bent á að hægt er að skrá sig á heimasíðu Skjá eins; www.s1.is eða sækja skráningareyðublöð í Símabúðirnar. Í kjölfarið tekur Sagafilm viðtal við þátttakendur sem á endanum sker úr um hvaða 25 úrvalsstúlkur og stálheppni herramaður verða fyrir valinu. Aðstandendur þáttarins verða á Akranesi í dag, 9. júlí og verða í Sjálfsstæðissalnum, 3. hæð við Stillholt 16-18 klukkan 13:00. Hvetja þeir áhugasama einstaklinga til að skrá sig og kíkja við í viðtöl.