27. júlí. 2005 01:09
Verkalýðsfélag Akraness hefur undanfarna daga verið að aðstoða eigendur Spútnikbáta ehf. á Akranesi við að sækja um dvalar- og atvinnuleyfi fyrir Pólverjana fimm sem þar hafa unnið að undanförnu en launamál þeirra hafa verið í fréttum að undanförnu. VLFA gekk frá ráðningarkjörum fyrir Pólverjana í gær og verður tímakaupið í dagvinnu 948 krónur og tímakaupið í yfirvinnunni verður 1.587. Eins og fram hefur komið þá var haft eftir Pólverjunum sjálfum að þeir væru með 320 kr. á tímann að jafnaði. Með þessum nýja ráðningarsamningi við eigendur Spútnik báta hækka Pólverjarnir um 196.2% í launum.
Félagið þakkar Ingólfi Árnasyni stjórnarformanni Spútnikbáta fyrir að hafa viljað leysa málið jafn vel og farsællega og raunin varð. "Það er og verður stefna Verkalýðsfélags Akraness að verja hagsmuni okkar félagsmanna eins og kostur er, ekki mun verða horft í tíma né aura í þeirri hagsmunagæslu," segir í tilkynningu frá Verkalýðsfélagi Akraness.