03. ágúst. 2005 08:09
Fremur rólegt var hjá lögreglunni í Borgarnesi um helgina þrátt fyrir að umferðin væri mikil um héraðið og einkum í gegnum það þegar fólk var á leið norður í land. Nokkuð bar þó á því að ökumenn væru að flýta sér meira en lög gera ráð fyrir en um 40 manns voru stöðvaðir fyrir of hraðan akstur. Þá var einn kærður fyrir ölvunarakstur og eitt fíkniefnamál kom upp við reglubundið eftirlit. Það var á föstudagskvöld en þá var ökumaður stöðvaður á leið sinni á Snæfellsnes. Í bílnum fundust 3 – 4 gr af hassi og um 1 gr af amfetamíni.