23. ágúst. 2005 03:35
“Eftir því sem ég best veit þá er þetta fyrsti hnúðlaxinn sem veiðist í Norðurá (latneskt heiti hans er Oncorhynchus gorbuscha). Hann var 3,2 pund að þyngd og 53 cm langur,” sagði Bjarni Júlíusson formaður Stangaveiðifélags Reykjavíkur í viðtali við Skessuhorn fyrir nokkrum dögum, en skömmu áður hafði hann landað þessum óvenjulega fiski.
Árlega veiðast þó nokkrir hnúðlaxar hérlendis. Oftast þá í veiðiám á Norðaustur- eða Austurlandi. Hnúðlax er Kyrrahafslax sem flækist þó aðeins um heimsins höf. Nafn sitt dregur hann af því að hængarnir fá ægilegan skolt og ljótan hnúð uppúr baki. Fiskurinn getur orðið allt að 5 pund en er annars fremur þunnvaxinn og ljótur. Hrygnurnar eru hins vegar mun líkari íslenska laxinum.
“Laxinn tók Sældu, neðarlega á Kálfhylsbrotinu í Norðurá. Takan var eins og hjá venjulegum smálaxi, hann hjó dálítið þegar verið var að þreyta hann þannig að ég giskaði á að hann væri tekinn í efri góm sem reyndar kom á daginn. Hann barðist eins og dæmigerður þriggja punda smálax en tók reyndar styttri rokur en þeir gera venjulega.” Bjarni sagðist að lokum vona að það verði ekki mikið fleiri fiskar af þessari gerð á ferðinni í Norðurá.