24. ágúst. 2005 10:47
Lesblinda hefur löngum verið álitin mikill galli og verið fólki fjötur um fót þegar genginn er hinn hefðbundni menntavegur. Ásta Valdís Guðmundsdóttir er Davis ráðgjafi í Stykkishólmi. Það þýðir í stuttu máli að hún leiðréttir lesblindu. Ásta vill þó halda því fram að ný sýn á lesblindu sé alltaf að verða útbreiddari og fleiri geri sér grein fyrir því að aðeins sé um öðruvísi skynjun að ræða. Hún þarf hvorki að vera betri né verri. Ásta er með skrifstofu í Egilshúsi í Stykkishólmi og fær fólk allsstaðar af landinu til meðferðar. “Já, það leggur oft á sig mikil ferðalög til að hitta mig og svo fer ég líka til Reykjavíkur.” Hún er fædd á Akureyri en hefur búið í Stykkishólmi síðan 1986, en eiginmaður hennar er þaðan.
“Árið 2003 fór ég á fyrirlestur í Háskólabíói þar sem Ronald D. Davis talaði og ég féll algjörlega fyrir því sem hann sagði. Hann útskýrði að það væri hægt að leiðrétta lesblindu og útskýrði svo vel hvernig þessar aðferðir voru. Það eru margir í kringum mig lesblindir, maðurinn minn, dóttir og æskuvinkona, þannig að mér fannst þetta höfða til mín,” segir Ásta um upphafið á þessum nýja ferli í lífi hennar.
Ronald Davis er sá maður sem hefur öðrum fremur stuðlað að nýrri sýn á lesblindu en hann heldur því fram að hún sé ekki bölvun heldur einnig blessun. Davis var fæddur einhverfur og fékk snemma þann stimpil á sig að það væri aldrei hægt að kenna honum neitt í skóla. Hann var þó afburðaklár í stærðfræði og mjög gáfaður þó honum gengi illa að lesa. Davis varð vellauðugur eftir að hafa unnið fyrir Bandaríkjastjórn að verkefnum tengdum geimvísindum. Hann settist í helgan stein aðeins 42 ára gamall og einsetti sér að finna lausnina á lesblindu sinni. Hann gaf út bókina “Náðargáfan lesblinda” eða “The Gift of Dyslexia” sem er nú víðlesið rit.
Náðargáfan
“Flestir einstaklingar hafa myndræna og orðræna hugsun. Svo temjum við okkur að nota þá hugsun sem reynist okkur meðfærilegri. Þeir sem temja sér myndrænu hugsunina frekar geta lent í vandræðum með tvívíð tákn svo sem bókstafi, tölustafi og nótur,” útskýrir Ásta. “Lesblindir hugsa öðruvísi, nær eingöngu í myndum. Hugsa og læra gegnum hugrænar myndir sem eru þrívíðar. Tvívíð tákn eins og bókstafir í skóla verða erfið.” Hún segir að ekki sé um lækningu að ræða, enda ekki þörf á því þar sem þessi myndræna hugsun geti komið fólki vel. “Lesblindir skoða stafina frá ólíkum sjónarhornum samtímis og það vill Davis meina að sé ákveðin náðargáfa. Við tölum um skynvillt ástand og ekki að lækna eitt né neitt, heldur skynstilla fólk.”
Einstaklingar sem Ásta hefur tekið til meðferðar hafa verið á aldrinum 9 til 52 ára og segist hún búast við því að sá hópur eigi eftir að víkka enn meira. Hún er ein af tólf Davis leiðbeinendum hér á landi, en sá hópur var á dögunum að kaupa lesblind.com, sem er fyrirtækið sem flutti Davis leiðréttinguna hingað til lands. En út á hvað gengur svo meðferðin? “Í íslensku er fullt af orðum sem hafa enga mynd á bak við sig. Um leið og lesblindir geta búið til mynd sem tengist orðinu geta þeir lesið orðið og skilið þýðingu þess. Við vinnum að því að búa til myndir við myndlaus orð, til dæmis í leir, en þá má segja að búið sé að leiðrétta lesblinduna. Yfirleitt eru þetta svona 30 tímar og svo tekur við heimameðferð með stuðningsaðila. Hinn lesblindi getur verið að læra 4-6 myndlaus orð á viku. Við útvegum einstaklingnum verkfærin, en þetta byggist á því að hann vilji sjálfur leggja á sig vinnu. Við hjálpum börnum og fullorðnum með lestur, lesskilning og stærðfræði, og einnig er þetta lyfjalaus nálgun við ofvirkni og athyglisbrest.”
Gefandi starf
Ásta segir viðhorfið til lesblindu óðum vera að breytast. “Fólk hefur hætt til að horfa á lesblindu sem örðugleika og eitthvað slæmt, en það má sannarlega líta á lesblindu sem snilligáfu. Picasso, Bill Gates, ýmsir hönnuðir og fleiri og fleiri hefðu ekki til dæmis getað skapað þessa hluti sem þeir eru frægir fyrir ef það hefði ekki verið fyrir þessa þrívíðu hugsun. Ég hef meira að segja heyrt um arkitektastofu í Bandaríkjunum sem vill helst aðeins ráða lesblinda arkitekta, því þeir sjá fyrir sér veggi og lagnakerfi í höfðinu án teikninga. Aðalatriðið er að þetta hefur ekkert með gáfur að gera.” Ásta er menntaður leikskólakennari en einbeitir sér nú alfarið að Davis ráðgjöf, enda segir hún það mjög gefandi. “Það er ofsalega gaman að sjá þegar fólk er til dæmis að lesa upphátt í fyrsta skipti á ævinni eða uppgötva allt í einu hvað deiling er. Það er alveg rosalega gaman.”