26. ágúst. 2005 01:27
Gamla Mjólkursamlagið við Brákarsund í Borgarnesi verður ekki rifið eins og bæjarstjórn Borgarbyggðar hafði áður ákveðið.
Samkvæmt nýju deiliskipulagi átti ný íbúðabyggð við Brákarsund að ná inn á lóð samlagshússins. Upp kom mikil andstaða í Borgarnesi, og víðar, við þá ákvörðun að rífa samlagið sem byggt var á fjórða áratugnum og teiknað af Guðjóni Samúelssyni. Vísað var í menningarsögulegt gildi og ýmsar hugmyndir settar fram um framtíðarnýtingu hússins.
Bæjaryfirvöld töldu það hinsvegar of dýrt fyrir bæjarsjóð að gera samlagið upp. Vegna andstöðunnar var opnað á að húsið yrði selt og nú hefur bæjarstjórn ákveðið að ganga til samninga við Pál Björgvinsson arkitekt á grundvelli kauptilboðs hans í húsið.
Páll mun ætla að nýta húsið fyrir íbúðir og menningartengda þjónustu.