26. ágúst. 2005 03:56
Landbúnaðarháskóli Íslands og Skógrækt ríkisins hafa gert með sér samstarfssamning um aukna áherslu á kennslu og rannsóknir á sviði skógfræði við skólann. Þá tók Bjarni Diðrik Sigurðsson nýlega við prófessorsstöðu í skógfræði og landgræðslu við skólann. Að sögn Bjarna Diðriks mun nýi samstarfssamningurinn við Skógræktina gjörbreyta allri aðstöðu skólans til að byggja upp metnaðarfullt nám í þessari nýju búgrein við háskólann. Skógrækt ríkisins býður fram rannsóknaaðstöðu og fagþekkingu og fær á móti margar fúsar hendur námsmanna sem vinna BS-verkefni eða ljúka jafnvel meistaragráðu á þeirra fagsviði.