13. september. 2005 04:23
Sveitarstjórn Borgarfjarðarsveitar hefur samþykkt að koma á fót leikskóladeild í íbúð sveitarfélagsins við Túngötu á Hvanneyri. Með því er ætlunin að brúa bil þar til nýr leikskóli mun rísa í sveitarfélaginu. Linda Björk Pálsdóttir sveitarstjóri segir að um sé að ræða 80 fermetra íbúð og samkvæmt fyrirliggjandi teikningum verði pláss fyrir 11 leikskólabörn á deildinni. Hún segir að undanfarið hafi dagmæður ekki fengist til starfa í sveitarfélaginu og nú séu um 9 börn á biðlista eftir leikskólaplássi.
Samið hefur verið við PJ byggingar um að breyta íbúðinni og er þessa dagana verið að ganga frá skipulagningu verksins. Þegar hefur verið auglýst eftir starfsfólki og hafa nokkrar umsóknir borist. Samkvæmt björtustu vonum er reiknað með að starfsemi hinnar nýju leikskóladeildar geti hafist 1. október.
Nýr leikskóli er í undirbúningi í sveitarfélaginu og er nú unnið að hönnun hans. Ekki liggur fyrir, að sögn Lindu Bjarkar, hvenær bygging hans muni hefjast og því síður hvenær hægt verði að taka hann í notkun.