02. október. 2005 01:29
Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur aukist mikið samkvæmt nýrri skoðanakönnun Gallup og hefur ekki verið meira á þessu kjörtímabili. Samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup er fylgi Sjálfstæðisflokksins nú 44% og hefur aukist um 8 prósentur á einum mánuði. Samfylkingin fengi 29% atkvæða samkvæmt könnun Gallup eða 1% minna en í ágúst. Fylgi Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs mælist nú 14% eða 5 prósentum minna en í ágúst. Fylgi Framsóknarflokks mælist 9% sem er 1% minna en í ágúst og fylgi Frjálslynda flokknum fer úr 4% í 3%.
Í Þjóðarpúlsi Gallup var einnig spurt um ráðherraskipti Sjálfstæðisflokksins. Fram kom í fréttum Sjónvarpsins í gær að 48% þátttakenda sögðust ánægð með þau, 17% sögðust óánægð og 34% hlutlaus. Einnig var spurt hvernig menn teldu að Geir H Haarde kæmi til með að standa sig sem formaður Sjálfstæðisflokksins og 84% aðspurðra sögðust telja að hann muni standa sig vel en 9% að hann standi sig illa.
Í könnun Gallup var einnig spurt um afstöðu til framboðs Íslendinga í Öryggisráðið. Aðeins 28% aðspurðra eru hlynntir því að Íslendingar bjóði sig fram. 53% eru á móti en 19% taka ekki afstöðu.