11. október. 2005 03:11
Laugardaginn 8. október efndi Golfklúbburinn Leynir til afmælishófs fyrir helstu styrktaraðila golfklúbbsins, velunnara og samstarfsaðila. Heimir Fannar Gunnlaugsson, formaður Leynis, fór yfir sögu félagsins undanfarin 40 ár og kynnti áform og væntingar þess í nánustu framtíð, svo sem áframhaldandi uppbyggingu Garðavallar, nýjan æfingavöll fyrir börn og unglinga, hugmyndir að nýju klúbbhúsi, áhalda- og tækjahúsi og áherslu á öflugra og betra unglingastarf. Afmælisblað Leynis var kynnt á fundinum og verður því dreift í öll hús á Akranesi á næstu dögum. Þá var ný heimasíða Leynis kynnt þar sem hægt verður að sjá yfirflugsmyndir af hverri golfbraut fyrir sig þegar heimsíðan verður fullbúin.
Undirritaður var þriggja ára samningur milli Leynis og Nolan ehf um rekstur veitingasölu á Garðavelli. María Nolan, rekstraraðili Nolan ehf, rak veitingasöluna í sumar með miklum ágætum og vildi stjórn Leynis gera sitt til að njóta áfram hæfileika hennar með gerð samningsins.
Golfsamband Íslands heiðraði Hannes Þorsteinsson, golfvallararkitekt með gullkrossi sambandsins fyrir þátttöku hans í uppbyggingu og framþróun golfíþróttarinnar á Íslandi til margra ára.