12. október. 2005 10:24
Halldór Blöndal og fleiri þingmenn hafa lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar þar sem samgönguráðherra verði falið að undirbúa og hrinda í framkvæmd nauðsynlegum rannsóknum og mælingum til þess að hægt sé að setja veg frá Norðurárdal í Skagafirði um Stórasand til Borgarfjarðar í mat á umhverfisáhrifum svo fljótt sem kostur er. Samkvæmt tillögunni skal hafa í huga að framkvæmdin verði öll eða að hluta til í einkaframkvæmd og að kostnaður við hana greiðist með veggjöldum; “eftir því sem eðlilegt er,” eins og segir orðrétt í tilllögunni. Þá er lagt til að vegurinn verði tekinn inn í næstu samgönguáætlun.
Í greinargerð með tillögunni segir meðal annars: “Vegur um Stórasand styttir leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur um u.þ.b. 40 km og 40 km til viðbótar, ef farið er um Kaldadal. Þetta verður falleg leið og einn af kostum hennar er, að hún mun hlífa þjóðgarðinum á Þingvöllum við gegnumakstri. Þess er því að vænta að tillaga þessi fái góðar undirtektir. Loks er þess að geta að þess er víða krafist nú að Reykjavíkurflugvöllur verði lagður niður. Fyrirséð er, að áætlunarflug milli Akureyrar og Reykjavíkur leggst niður um leið eða því sem næst. Vafalaust er að vegur um Stórasand er sú vegaframkvæmd utan nábýlis Reykjavíkur, sem mesta arðsemi hefur. Að því ber að hyggja.”