24. október. 2005 03:27
Á morgun, þriðjudaginn 25. október klukkan 20 verða haldnir tónleikar í Safnaðarheimilinu Vinaminni á Akranesi til styrktar Þuríði Örnu Óskarsdóttur. Þuríður Arna greindist með illvíga flogaveiki í október 2004 og í kjölfarið fundust æxli í höfði hennar. Þuríður fer á næstunni til Boston til frekari rannsókna og jafnvel aðgerðar.
Á tónleikunum mun Hanna Þóra Guðbrandsdóttir, sópran og frænka Þuríðar litlu, flytja fjölbreytta og skemmtilega söngdagskrá ásamt gestasöngvurunum Rannveigu B. Þórarinsdóttur, sópran og Agli Árna Pálssyni, tenór. Kolbrún Sæmundsdóttir annast píanóundirleik á tónleikunum.
Ástæða er til að hvetja alla til að mæta á tónleikana, hlýða á fallega og skemmtilega tónlist og styðja um leið við bakið á þessari litlu hetju sem á fyrir höndum langa og stranga ferð vestur um haf til að fá þar bót meina sinna. Aðgangseyrir að tónleikunum er aðeins 1.000 krónur. Þess má geta að í Skessuhorni sem kemur út á morgun verður viðtal við Óskar Örn Guðbrandsson, föður Þuríðar Örnu.