27. október. 2005 08:47
Hönnun hf. hefur sótt um framkvæmdaleyfi m.a. til bæjarráðs Borgarbyggðar fyrir lagningu ljósleiðara frá Hvalfjarðargöngum að Bifröst, með viðkomu í Borgarnesi og á Hvanneyri. Bæjarráð samþykkti erindið á síðasta fundi sínum. Eins og greint hefur verið frá hér í blaðinu var nýverið skrifað undir viljayfirlýsingu um samstarf og þróun þekkingarsamfélags í Borgarfirði og eiga sveitarfélögin á svæðinu og háskólarnir hlut að því ásamt Orkuveitu Reykjavíkur. Lagning ljósleiðara á þéttbýlisstaðina á þessari leið sem um ræðir er eitt meginverkefnið sem fara þarf í til að koma á háhraða fjarskiptaþjónustu á þessum stöðum og gera þá þannig samkeppnishæfa um íbúa og fyrirtæki.