31. október. 2005 12:43
Bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar hefur samþykkt samhljóða með hvaða hætti byggðakvóta þeim er í hlut sveitarfélagsins kom fyrir skömmu verður úthlutað. Sem kunnugt er komu 210 tonn í hlut bæjarins. Í reglunum segir að úthluta skuli kvótanum milli þeirra útgerða sem áttu aflahlutdeild í hörpudiski þann 1. september 2005 og stunduðu skelveiðar í Breiðafirði á síðustu tveimur skelvertíðum. Þá verða bátarnir að hafa verið skráðir í Stykkishólmi 31. október 2005 og skiptist kvótinn á grundvelli aflahlutdeildar í hörpudiski fiskveiðiárið 2005/2006.
Byggðakvótann þarf að veiða á bátum skráðum í sveitarfélaginu, landað þar og þar skal aflinn unninn. Þá er útgerðum skylt að leggja til aflaheimildir að lágmarki til jafns við úthlutaðan byggðakvóta, sem einnig verði unnin í fiskvinnslu í bæjarfélaginu. Í ágústlok 2006 skulu útgerðir þeirra skipa er fá úthlutun skila inn upplýsingum til Stykkishólmsbæjar, um nýtingu hans.