03. nóvember. 2005 11:19
Þórður Guðjónsson hefur ákveðið að ganga í raðir ÍA manna og mun í dag skrifa undir þriggja ára samning við félagið að því er kemur fram á vef Knattspyrnufélags ÍA. Þórður er sem kunnugt er innfæddur Skagamaður og lék síðast með liði ÍA árið 1993 er hann varð markakónugur í efstu deild með 19 mörk. Hann hefur síðan leikið erlendis og víða komið við. Lengst lék hann í Belgíu og Þýskalandi. Á heimasíðu ÍA segir að Þórður sé mikill hvalreki fyrir félagið, sem þurft hafi að horfa á eftir mörgum sterkum leikmönnum undanfarin ár.
Þórður hefur undanfarnar vikur verið orðaður við ýmis félög hér á landi meðal annars meistaralið FH. Í viðtali við Morgunblaðið í dag segir hann að hjartað hafi ráðið för við ákvarðanatöku sína að þessu sinni. Hann á eftir að ganga frá starfslokum sínum við Stoke City en á ekki von á því að gengið verði frá þeim málum fljótlega.
Þórður mun undirrita samninginn við ÍA í höfuðstöðvum KB-banka í Reykjavík í dag kl. 15.