08. nóvember. 2005 05:29
Fjármálaráðstefna sveitarfélaga verður haldin á Nordica Hótel í Reykjavík fimmtudaginn 10. nóvember og föstudaginn 11 nóvember nk. Ráðstefnan hefst kl. 10:00 fyrri daginn og lýkur kl. 12 á hádegi seinni daginn. Ráðstefnan hefst með ræðu Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þá mun Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra fjalla um samskipti ríkis og sveitarfélaga og framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.
Á fyrri degi ráðstefnunnar verða flutt fimm erindi um fjárhagsstöðu sveitarfélaga, um kjarasamninga og vinnumarkaðsmál, endurskoðun á hlutverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, álagningu fasteignaskatts o.fl. Síðar sama dag verða pallborðsumræður með þátttöku fulltrúa þingflokka á Alþingi um framtíðarsýn í málefnum sveitarfélaganna.
Síðari daginn verður ráðstefnunni skipt upp í tvær málstofur. Í annarri verður m.a. birt tölfræði um þróun grunnskólans 1996–2004, fjallað um reikningsskil sveitarfélaga og þjóðhagsreikninga og gerð grein fyrir upplýsingaveitu sveitarfélaga. Í hinni málstofunni verður m.a. fjallað um innkaupamál sveitarfélaga frá ýmsum sjónarhornum. Öll erindi og ávörp sem flutt verða á ráðstefnunni verða birt á upplýsinga- og samskiptavef Sambands íslenskra sveitarfélaga, www.samband.is, eins fljótt og auðið er eftir að þau verða flutt.
(fréttatilkynning)